þriðjudagur, desember 09, 2008

Lygamöntrur

Tungumálið er sennilega hættulegasta vopnið sem maðurinn hefur fundið upp. Með því virðist nefnilega vera hægt að svipta venjulegt fólk heilbrigðri skynsemi og telja því trú um nánast hvaða himinhrópandi vitleysu sem er. Einkum virðast mér þó Íslendingar berskjaldaðir fyrir áhrifum tungumálsins. Ef setning er sett fram í formi algildra sanninda eða spekiyrða og þulin nógu oft fer fólk sjálfkrafa að álíta hana rétta. Gildir þá einu hve miklum dómadags þvættingi hefur verið komið fyrir í henni. Dæmi um þetta gæti verið setningin: „Sjaldan lýgur almannarómur.“ Þeir sem almannarómur hefur tekið til umfjöllunar vita ósköp vel að hraðlygnara fyrirbæri er vandfundið, ef það á annað borð er til.
Annað dæmi gæti verið setningin: „Það sem drepur mann ekki gerir mann sterkari.“ Þessi setning lýsir óskiljanlegu hugsunar- og tillitsleysi. Hvað með alla þá sem orðið hafa fyrir hremmingum sem marka þá fyrir lífstíð og gert hafa þá veikari fyrir? Hvað með bæklandi og limlestandi sjúkdóma, áföll og harm sem aldrei hverfur? Vissulega er hægt að lifa af sorg og kvöl og jafnvel að eflast við ágjöf. En margir lenda einnig í raunum sem veikja þá til muna það sem þeir eiga eftir ólifað, þótt þær dragi þá ekki beinlínis til dauða.
Sömuleiðis veit ég ekki hvaða húmorslausi þurs mælti fyrstur: „Öllu gamni fylgir nokkur alvara.“ Þetta er einhver mesta endemis þvæla sem ég hef nokkru sinni heyrt. Mörgu gríni fylgir hreint engin alvara. Fullt af gamni er sett fram í þeim tilgangi einum að kalla fram brosviprur og er ekki ætlað að hafa neina tengingu við neitt sem á nokkurn hátt má flokka undir alvöru. Með því að telja öllu gamni fylga einhver alvara er gamansömu fólki gerðar upp annarlegar hvatir, meiningar eru lesnar inn í fullkomlega græskulaust glens og ánægjan af hreinræktuðu og tæru gríni eyðilögð fyrir öllum.
Ástæða þess að ég er að vekja máls á þessu er að um þessar mundir virðist mér enn ein lygamantran af þessu tagi vera að fara á kreik. Sú setning hlýtur auðvitað að ofbjóða réttlætiskennd hvers manns og nísta hann í raunveruleikaskynið. Því má þessi blekking alls ekki verða að viðurkenndri staðreynd í huga nokkurs manns. Setningin er svona: „Við tókum öll þátt í þessu.“
Bakþankar í Fréttablainu 7. 12. 2008.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já, ég verð alltaf jafn reið þegar ég heyri/les fólk halda þessu fram!

Áskorun sagði...

Frábær pistill eins og von var á. Við tókum EKKI öll þátt í þessu.

Nafnlaus sagði...

Hef oft velt fyrir mér fáránleika svona fullyrðinga.

Harpa Jónsdóttir sagði...

Einmitt.

Nafnlaus sagði...

Einnig mætti benda á að fólk af minni kynslóð (er nýorðinn 27 ára) hefur verið alið upp við endalausan áróður banka um að maður geti eignast hvað sem er - maður þarf bara að taka pínu lán. Þegar ég var unglingur var þessi fjármögnunargeðveiki í startholunum, Lýsing og Glitnir farin að auglýsa endalausar fjármögnunarleiðir og gleði.

Fyrstu árin eftir að ég varð fjárráða fannst mér ekkert eðlilegra en að taka lán fyrir hverju sem mig langaði í. Ég var ekki fyrr kominn með vísakort í hendurnar en ég var farinn að raða alls konar vitleysu á það. Ég vitkaðist með aldrinum, en sit samt sem áður í súpunni vegna þess að ég var svo óheppinn að stofna fjölskyldu á röngum tíma og þurfa þak yfir höfuðið. En mér fannst bara svo sjálfsagt að skuldsetja mig út í hið óendanlega - enda var þjónustufulltrúinn svo jákvæður og leist svo vel á planið okkar. Lét okkur í té æðislegt, verðtryggt lán, sem verður fjölskylduvinur það sem eftir er.

Spurning hvort mín kynslóð geti ekki kært ríki og banka fyrir að eyðileggja hugmyndaheim okkar og viðhorf til peninga?

Nafnlaus sagði...

Æ, skelingar undur sem ég gleðst yfir við´horfum þínum til þessara lygamantra. Hef um langt skeið tjáð mig í andstöðu við þær.

SVardæmi: jaááá´, sannliekanum verður hver sárreiðastur.
Og bittnú.
Annars er orðið það áliðið að ég hygg á frekari skriftir að morgni.

Helga Ág.,

...sú er þarfnast ljóðsins um fjalla- og menningarferða hjónin. Vil bara hafa það handbært til að efla minn andlega þrótt; standast freistingar upplestrar í næsta kjarnafjölskylduboði.
Góða nótt

þakkir fyrir marga skemmtan ...

Helga Ág.

Nafnlaus sagði...

Bókvitið verður ekki í askana látið
Fall er fararheill
Konur eru konum verstar

-Gunnhildur

Sigga Lára sagði...

Einmitt. Þetta er eins og að skipa mis-óafvitandi burðardýrum að taka ábyrgð á glæpum þeirra sem skipulögðu smyglið.

(Annars er auðvitað komið allt of mikið að myndlíkingum í haust. Ég skal skammast mín.)

Bergþór Pálsson sagði...

Bloggið þitt í heild þarf að fara í bók þegar fram líða stundir. Hér fara saman greind, réttlætiskennd, ritfærni og húmor og margt fleira gott. Takk.

grumpy sagði...

Við skulum nú kannski ekki alveg gleyma því að við tókum allavega langflest þátt í þessu, þó mismikinn.

Það að við höfum verið plötuð til þess er ekki nóg til að firra okkur allri ábyrgð.