Í nótt dreymdi mig draum sem var eins og út úr Íslendingasögum. Hann var svo þrunginn merkingu að ég hlýt að óska eftir ráðningu hans hjá frómum lesendum. Hann var á þessa leið:
Mér fannst að ég væri að taka útvarpsviðtal við Megas. Spurningarnar áttu að vera út í hött til að gefa kost á hnyttnum tilsvörum, en það fór fyrir ofan garð og neðan. Þegar Megas spurði mig hvað fyrir mér vekti með þessum þætti og ég svaraði því til að ég vonaðist til að hann slægi í gegn hló hann. Að skilnaði gaf hann mér síðan ferhyrnta, græna leðurpjötlu með áþrykktu tvískiptu mynstri sem hörð var og skorpin eins og gamalt bókarspjald. Síðan fór hann með vísu.
Þegar ég kom heim reyndi ég að fara með vísuna fyrir konuna mína en rak fljótt í vörðurnar. Þá kom aftur á móti í ljós að hún hafði heyrt þessa vísu áður, kunni hana og fór með hana fyrir mig.
Þetta þótt mér merkilegt og ég fór að velta því fyrir mér hvort algengt væri að fólk dreymdi rétt kveðnar vísur, sem jafnvel væru eftir aðra en það sjálft. Þá datt mér í hug að sennilega væri þessi vísa hreint bull, en mér fyndist hún bara vera góð og rétt kveðin þar sem mig væri að dreyma.
Þá vaknaði ég, eins og jafnan gerist þegar ég geri mér grein fyrir því í draumi að mig sé að dreyma. Hins vegar mundi ég vísuna. Hún er svona:
Mælt er að ég hafi mælt við því já
að menn skyldu þegar og án þess að hvá
landinu varpa í einingu á
úthafsölduna, svei mér þá
- úthafsölduna, svei mér þá.
Nú óska ég eftir ráðningu.
4 ummæli:
Þetta er fyrir umhleypingum á góu að ég tel. Bestu, Ási.
Ég veit að hlátur og gamanmál er fyrir sorg. En ef eitthvað sorglegt á sér stað í raunveruleikanum muntu fá hjálp í sorginni frá einhverjum sem þér þykir vænt um(þ.e. græna platan. Grænn í draumi táknar kærleik)Að dreyma vísu er fyrir góðu. Svo í framhaldi af þessari ákveðnu sorg verði einhver vegur framundan til batnaðar, hlykkjóttur en mönnum greið.
Annars veit ég um vísu sem konu einni dreymdi og var rétt kveðin. Hún mundi vísuna vel þegar hún vaknaði.
Ó þú Vindbelgjar einmanna hnjúkur,
sem allsnakinn stendur á fjallana grund,
samt faldur þinn skauta fyrnist ei heldur,
Þó fjólurnar blikni og grösin í lund.
Allt er í heiminum umbreyting,
Ástin og geðið í hjartanu þjóða,
engum því veldur ásteyting,
afarhátt fjallið sem skáldin um ljóða.
En Vindbelgur er einmitt fjall í Mývatnssveit.
Megas er holdtekja samfélagslegrar háðsádeilu. Viðtalið virkar ekki eins og þú ætlaðist til og hann veit að sá sem skilur hvað er raunverulega að gerast hér mun ekki slá í gegn í þetta sinn.
Leðurpjatlan er vísun í handritin, sem tákna menningu okkar, það sem gerir okkur sérstök.
Vísan er einnig mikilvægur hluti af menningunni en sjálfstæðisbaráttan var að miklu leyti háð með skáldskap.
Merking vísunnar er augljós. Þú greiðir atkvæði með því að við göngum í Evrópusambandið, án þess að gera þér grein fyrir því að þar með munum við missa sjálfstæði okkar (úthafsaldan tekur landið).
Þú getur ekki rifjað vísuna upp merkir að við missum sjálfstæði okkar ef við hlaupum á eftir hugmyndinni sem þú styður.
Konan þín býr aftur á móti yfir þekkingu á menningararfinum og verður þannig fulltrúi sjálfstæðisins.
Nú veit ég ekki hvaða skoðanir þið hjónin hafið á Evrópumálunum en þetta er allavega viðvörun. EKKI styðja aðild að ESB, leyfðu konunni að hafa vit fyrir þér ef sú grilla grípur þig.
Ég er þeirrar skoðunar að draumar tákni samtímann og fortíðina ekki framtíðina, og að þeir séu einungis leið undirmeðvitundarinnar til að fá útrás. Einmitt þess vegna fær fólk yfirleitt martraðir vegna einhvers sem hefur þegar gerst.
Aftur á móti finnst mér kostulegt, og tímanna tákn, að fólk skuli tengja þetta við ESB. Það er eins og ekkert megi gerast eða ræða í dag án þess að það tengist ESB á einn eða annan hátt.
Sorrý, en við höfum töluvert betri hluti til að eyða orku okkar í þessa dagana en eitthvað rifrildi um ESB eða ekki ESB.
Góð vísa, annars. Paul McCartney á að hafa dreymt lagið Yesterday - það fæddist að hans sögn fullmótað í draumi um látna móður hans.
Kannski geturðu bara degið þann lærdóm af þessum draumförum að þú stefnir inn í nýja tíma í þinni listsköpun - þú verður kannski Beat skáld.
Skrifa ummæli