Um þessar mundir er verið að sýna leikrit eftir Sigurð Pálsson, skáld, í einu atvinnuleikhúsanna. Verkið segir hann byggt á röddum sem hann heyri tala við sig þegar hann er á milli draums og vöku. Í viðtölum hefur hann sagt að hann hafi reynt að forðast eins og heitan eldinn að falla í þá gryfju að hafa einhvern söguþráð eða framvindu í verkinu og gefið í skyn að ástæða þess að aðrir láti eitthvað gerast í sínum leikritum sé ekki sú að fólki finnist svoleiðis leikrit yfirleitt skemmtilegri en þau þar sem ekkert gerist heldur séu þeir of huglausir til að þora að láta allt sem kalla mætti uppbyggingu lönd og leið. Mig langar sem sagt ekkert til að sjá þetta verk.
Þó þekki ég raddir, eins og þær sem Sigurður Pálsson lýsir, vel af eigin raun. Ég hef samt á tilfinningunni að mínar tali öðruvísi við mig en Sigurðar við hann. Í svefnrofunum í morgun heyrði ég til dæmis mína dularfullu hálfdraums-rödd segja þetta við mig: „Það versta sem ég hef lent í því að hafa er kímnigáfa. Hún gerbreytir því hvernig maður sér heiminn og litar öll samskipti manns við annað fólk. Ó, sagði ég kímnigáfa? Ég ætlaði að segja flatlús.“
1 ummæli:
Ég myndi borga mig inn á þitt leikrit.
Skrifa ummæli