fimmtudagur, júlí 10, 2008

Um Paul Ramses, Edmund Burke, Niles Crane og Pontíus Pílatus


Mál Keníamannsins Pauls Ramsesar hefur verið áberandi að undanförnu og með réttu. Ástæðulaust er að fara ítarlega í smáatriðin varðandi afgreiðslu máls hans, nógu mikið hefur verið um þau fjallað á flestum öðrum vettvangi.
En svo stiklað sé á stóru þá mátu íslensk stjórnvöld það þannig að réttur þeirra, sem tryggður er í Dyflinnarsamningnum, til að senda hann úr landi vægi þyngra en réttur nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra sé þess nokkur kostur, sem tryggður er í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Ísland er aðili að. Það ákvæði Dyflinnarsamningsins um að forðast beri í lengstu lög að sundra fjölskyldum var algerlega hundsað af Útlendingastofnun. Stofnunin hefur gengist við því að hafa ekki kynnt sér aðbúnað hælisleitanda á Ítalíu áður en Paul Ramses var sendur þangað, en fyrir liggur að þar eru mannréttindi þverbrotin á hælisleitendum sem þurfa að bíða mánuðum saman, sjaldnast skemur en í eitt ár, eftir að mál þeirra séu tekin fyrir. Á meðan Paul Ramses bíður upp á von og óvon við ómannúðlegar kringumstæður fjærri ástvinum sínum missir hann af frumbernsku sonar síns. Útlendingastofnun hefur ennfremur viðurkennt að hafa ekki haft neina tryggingu fyrir því að ítölsk stjórnvöld myndu ekki senda Paul Ramses beint til Kenía þar sem hann er á dauðalista. Loks játar hún að hafa ekki tekið neitt tillit til sérstakra tengsla Pauls Ramsesar við Ísland og Íslendinga eða þeirrar staðreyndar að fjölskylda hans er stödd hér á landi – með lögmætum hætti. Fullyrðingar sem heyrst hafa um annað eru ósannar.
Heimspekingurinn og stjórnmálamaðurinn Edmund Burke sagði eitt sinn: „The only thing necessary for the triumph of evil is for good men to do nothing.“ (Það eina sem hið illa þarf til að sigra er að gott fólk geri ekkert.) Þetta eru orð að sönnu. Ekki þarf að hlú sérstaklega að illskunni eða greiða götu hennar, hún ryðst fram af eigin rammleik. Það eina sem hún þarf sér til viðgangs er skeytingarleysi. Aðdáendur Fraziers Crane kannast vel við þessa tilvitnun. Bróðir hans, Niles, var afar hrifinn af henni. Hann var með hana innrammaða ofan í skrifborðsskúffunni hjá sér, hafði aldrei komið því í verk að hengja hana upp á vegg.
Tveir íslenskir stjórnmálamenn hafa orðið sér til ævarandi skammar með orðum sínum um mál Pauls Ramsesar. Annar þeirra, Jón Magnússon, sagði að hann sæi ekkert í málinu sem kallaði á að af mannúðarástæðum væri tekið öðruvísi á því en gert var. Maður hlýtur að stórefa að hann hafi kynnt sér svo mikið sem einn stafkrók um málið fyrst hann lætur annað eins rugl út úr sér, eða öðrum kosti að hann leggi einhverja afar brenglaða merkingu í hugtakið mannúð.
Hinn er Sigurjón Þórðarson sem vogar sér að líkja máli eiturlyfjasmyglarans Kios Alexanders Briggs við mál Pauls Ramsesar. Heimskan og mannvonskan er slík að mann setur hljóðan. Hugsaði hann með sér: „Ég fer til helvítis hvort sem er, því verður ekki breytt. Hvað get ég gert til að tryggja að ég verði tekinn fram fyrir í röðinni?“
Illskan og heimskan vaða uppi í íslensku samfélagi og eiga a.m.k tvo fulltrúa á Alþingi. Góðu fréttirnar eru þær að þeir eru í stjórnarandstöðu. Það er skylda allra annarra kjörinna fulltrúa okkar á Alþingi að sjá til þess að þessir siðferðilegu sorphaugar verði það að eilífu. Gott fólk má ekki gera ekki neitt, annars sigrar hið illa.
Það er vandræðalega auðvelt að koma auga á einhvers konar Niles Crane-heilkenni í framferði íslenskra stjórnvalda. Að ramma hið fallega inn án þess að hafa nokkra döngun í sér til að praktísera það sem þar er prédikað.
Í vetur var nefnilega mikið fjasað um hugtakið „kristilegt siðgæði“ á þingi og í þjóðfélaginu í tilefni nýrra grunnskólalaga. Sitt sýndist hverjum. Ég hef í sjálfu sér enga skoðun á niðurstöðunni. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að orðasambandið „kristilegt siðgæði“ í lögum sé ekki skíts virði þegar ljóst er að þeir sem um lögin fjalla hafa greinilega enga glóru um hvað í hugtakinu felst. Kristið siðgæði er nefnilega ekki í því fógið að „nugga sér utan í Krist“ heldur því að ganga fram í kærleika. Þegar Kristur er spurður hvað beri að gera til að öðlast eilíft líf stillir hann eilífa lífinu ekki upp sem verðlaunum og svarar: „Allt þetta skal ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Nei, hann svarar með dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum. Það er ekki kristilegt siðgæði að traðka á þeim sem minna mega sín á leið sinni í sparifötunum til kirkju svo aðrir sjái hvað maður er trúaður. Það er siðgæði faríseanna. Það er ekki kristilegt siðgæði að þvo hendur sínar af vandræðamálum, jafnvel þótt maður sé með Dyflinnarsamning upp á vasann sem heimilar manni það. Það er siðgæði Pontíusar Pílatusar. „Það sem þið gerið einum minna minnstu bræðra gerið þið mér,“ (Mt. 25:40) er kristilegt siðgæði.
Mikið skelfingar ósköp væri nú gott að heyra minna mas um kristilegt siðgæði og sjá einhverja framgöngu í kristilegu siðgæði í staðinn.
Guð blessi ykkur öll.

6 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Haha, vel mælt. Kristilegt siðgæði er lítils virði í hugum þessa auma fólks. Ætli dómsmálaráðherra/Jón/Sigurjón hafi velt fyrir sér hvað Jesús myndi segja ef Ramses bæri á góma þeirra á milli?

Nafnlaus sagði...

Eiturlyfjasmyglarans Kio? Sona, sona... var hann ekki sýknaður? Er þetta ekki svolítið eins og að kalla Andrés Magnússon nauðgara?
Kio gerðist reyndar eiturlyfjasmyglari síðar, en það var eftir að íslensk dómsmála- og fangelsisyfirvöld spilltu svartri sál hans, eftir það átti hann sér auðvitað ekki viðreisnar von.

Gunni sagði...

Þú hittir naglann sannarlega á höfuðið. Góð predikun.

kerling í koti sagði...

Sammála!

spritti sagði...

Ætli starfsmenn útlendingastofnunar fari þá ekki bara til helvítis á endanum ?

Nafnlaus sagði...

Þú ert KRÚTT!

-þhs