föstudagur, mars 23, 2007

Ísland í dag

Hvað er að gerast á Íslandi í dag?

Til stendur að drekkja Hafnarfirði í drullu og skít. Byggja stærstu álbræðslu Evrópu þar sem hún verður umlukin íbúabyggð á þrjár hliðar eftir 10 – 20 ár haldi bærinn áfram að stækka eins og hann hefur stækkað undanfarin 10 – 20 ár. Hópur fólks er á kaupi hjá alþjóðlegum auðhring við að falsa þessar hugmyndir og gabba bæjarbúa til að samþykkja þær á kolröngum forsendum.

Hvað annað?

Þrír mestu glæpamenn þjóðarinnar voru nýverið sýknaðir af öllum ákærum fyrir stærsta þjófnað Íslandssögunnar, að vísu rúnir mannorði og æru. Ástæðan er sú að íslensk lög eru svo haganlega smíðuð að þegar menn okra og ræna í gegn um stórfyrirtæki er persónuleg ábyrgð þeirra á gjörðum sínum engin.

Hvað er á forsíðum blaðanna?

Jú: Vændi í Reykjavík. Við ættum að finna eitthvað annað orð yfir fréttir, eitthvað í stíl við "news" eða "nyheder", því nákvæmlega hvað það er sem er nýtt við að vændi sé stundað í Reykjavík hefur farið fram hjá mér. Stóð kannski einhver í þeirri meiningu að Reykjavík væri eini kaupstaðurinn af sinni stærðargráðu á Vesturlöndum þar sem vændi væri óþekkt? Hélt kannski einhver að stúlkur sem gefa upp GSM símanúmer á einkamál.is og auglýsa eftir $kyndikynnum væru einmana og langaði til að spjalla?

Hvað er fleira í fréttum?

Nýlega var klámhundum bannað að koma til Íslands og gista á hóteli sem sýnir klám í öllum herbergjum, hótelinu þar sem öllum iðnustu núlifandi fjöldamorðingjum reikistjörnunnar er tekið með KFUM-kveðjunni "svara, svara, vertu velkominn" þegar þeir mæta þangað á herforingjaráðstefnur NATÓ.

Á sama tíma ...

... er ekki hægt að auglýsa gosdrykki öðruvísi en með vísan í kynlíf (ZERO forleik / ZERO smellur á brjóstahalda / ZERO samræður við hitt kynið fyrir kynmök).

Á sama tíma ...

... er kvartað undan því að uppistandarar haldi sig alfarið fyrir neðan beltisstað í skemmtidagskrá sinni.

Hvernig er öðruvísi hægt að höfða til þjóðar hverrar áhugasvið nær ekki upp úr nærbuxum náungans? Ég bara spyr.

10 ummæli:

Jimy Maack sagði...

Hvernig væri auglýsingaherferð með ENGUM enskuslettum?

Nafnlaus sagði...

Ef á að ná athygli markhóps Coca Cola er vísun í kynlíf líklega árangursríkasta leiðin. Það var nú bara ekki mikið meira í hausnum á manni á aldrinum 15-20 ára. Kannski tala ég bara fyrir mig.
Takk annars fyrir góða pistla.
Kristján

Nafnlaus sagði...

Svo verða allir svo yfirmáta hreyknir og hamingjusamir ef íslenski hesturinn fær lofsamlega umfjöllun í tímaritinu Forbes.

Nafnlaus sagði...

Á öðrum nótum vil ég benda pistilshöfundi á að skoða upptökur af viðureign MK og MH í Gettu betur. Þú dæmdir MK eitt stig í hag í hraðaspurningunum þegar spurt var um fjölda í sentet. Ef vel er að gáð má heyra að liðsmenn segja sex og fimm en ekki sex og sjö eins og þú vildir meina. Með réttu hefðu MK-ingar ekki komist í bráðabana og því rétt að endurskoða úrslitin.

Es. Ég er stoltur MR-ingur og tengist umræddum skólum á engan hátt.

Nafnlaus sagði...

Þess má geta að auðvitað átti ég við septet hér að ofan.

Hildigunnur sagði...

Næsta skref í auglýsingaherferðinni verður líklega: Kynlíf með ZERO samþykki...?!?!

Nafnlaus sagði...

spurningu til davíðs þórs...munu þessi útlenku stórfyrirtæki fara annað ef þeir fá ekki samninga hér? fara til annara landa þar sem ennþá meiri mengun mun vera?

Nafnlaus sagði...

Heyri það einnig, fimm og sex, ekki sjö.
Hvað gerist þá? Keppnin endurtekin?

Nafnlaus sagði...

Alveg sammála pistlinum. Hafnfirðingar eru í tómu tjóni.

Nafnlaus sagði...

Húrra!!
50% þjóðarinnar eru ofurþakklát og full eftirvæntingar.
Skyldi hjartaknúsarinn Cliff brydda upp á einhverju nýju og spennandi í landinu voru?

Hef aldrei getað skilið hvers vegna landar mínir gína við gömlum, útbrunnum
rokkurum sem loksins brjóta odd af oflæti sínu og heimsækja klakann þegar
þeir eru komnir á grafarbakkann. Kannski heimsækja þessir menn okkur hingað
til að skrapa saman í pyngjuna en ég efast um það. Miklu frekar til að kitla
hégómagirnd sína þegar þeir finna að athygli fólks á þeim minnkar í
heimalandinu. Þá er auðvelt að heimsækja fólkið, norður í ballarhafi sem
kvartar aldrei og er ofurhamingjusamt, jafnvel þótt tónlistarmennirnir séu
með súrefniskúta sökum aldurs og andnauðar og hafi sungið í
álversauglýsingum. Fólkið sem gerir bara þrjár kröfur í lífinu:

Um að veðrið sé gott, íslenski hesturinn heilbrigður og enginn kúkur í Bláa
lóninu. Að þessum kröfum uppfylltum, gætum við hugsanlega komist í
heimsfréttirnar.

Kv.

Einar