miðvikudagur, mars 28, 2007

Víðtæk og skipulögð eldhúsáhaldaréttindabrot?



Í gær var pínulítið tilefni til að gera sér dagamun hjá fjölskyldunni og ákvað ég af því tilefni að baka skúffuköku. Ekki hafði ég neina uppskrift við hendina svo ég leitaði bara á netinu og fann. Eftir að hafa kynnt mér uppskriftina sem mér leist best á hætti ég hins vegar snarlega við að nota hana. Þar var nefnilega kveðið á um að í kremið skyldi ég nota fjórar kúgaðar matskeiðar af kakói. Ég gat bara ekki fengið mig til þess.
Þess í stað nýtti ég mér umhyggju annarra, en góða fólkið hjá Vilko hefur nýverið tekið sig til og sett öll þurrefnin sem þarf í skúffuköku í poka og sem seldir eru úti í búð.
Hins vegar verð ég að kvarta yfir einu. Skúffukaka heitir skúffukaka einmitt af því að hún er bökuð í skúffu. Skúffukökuuppskrift þar sem segir: "Setjið deigið í hæfilega stórt form t. d. ferkantað 20 x 20 cm eða hringlaga form 20 cm ..." er alls ekki skúffukökuuppskrift heldur bara uppskrift að venjulegri súkkulaðiköku. Ekki satt? Ofnskúffan mín er 30 x 40 cm.
Kakan var að vísu ljúffeng og gerði góða lukku, en ég varð auðvitað að gera tvöfalda uppskrift. Sem sagt, takk fyrir fyrirhöfnina, góða Vilko-fólk, en breytið endilega nafninu á skúffukökunni ykkar í "Ósköp venjulega súkkulaðiköku", "Hálfa skúffuköku" eða jafnvel "Skúffuköku fyrir sérlega litlar ofnskúffur".

18 ummæli:

Silja sagði...

Ertu að segja mér að önnur af tveimur ástæðum fyrir viðhaldi á dönskukunnáttu minni: að lesa á súpu/sósu/kökupakka sé nú dottin upp fyrir?
Vil ég þá leggja til að Grænlendingar læri íslensku og spari komandi kynslóðum Íslendinga margra ára vinnu.

Alda Berglind sagði...

Ég skil ekki af hverju 4 kúgaðar matskeiðar af kakói í kremið varð til þess að hætt var við uppskriftina góðu?

Nafnlaus sagði...

Óhóhóhó HAHAHAHAHAHAAAAAaaaa.....

Kúgaðar, ég deyheyheyhey.....!

Kannski betra að setja "aðeins bara kíló" í staðinn?

Nafnlaus sagði...

óli s
þetta var ekki pínulítið tilefni í gær, og verðskuldar stóra og mikla skúffuköku.

Anna Jonna sagði...

Það er greinilegt að kakó kúgar fjöldan allann af matskeiðum í skúffukökuuppskrifum. Megi Ó-Frjálslyndi flokkurinn takmarka ferðir skúffukökuppskrifta um landamæri Íslands.

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki allt Alcan að kenna??

Nafnlaus sagði...

Smámunasemi og stælar, ekkert annað.
Þú missir 4 stig hjá mér með svona stælum.

Nafnlaus sagði...

Innleg mitt hér að ofan á að sjálfsögðu við um matskeiðarnar kúguðu.

Nafnlaus sagði...

hahaha :) það er vinkona mín sem á þessa síðu.. ég er mikið búin að stríða henni á þessari kúgun! Kannski hún lagi þetta eftir að ég sendi henni linkinn á greinina þína.
En.. svo það fylgi... þessi kaka hennar er dásamlega góð !!!

Og til þín síðasti "ónefndi" ræðumaður.. ef þú ætlar að blammera fólk.. viltu þá vera svo vænn að kynna þig svo þú sért ekki að skjóta þig í fótinn...

Nafnlaus sagði...

Takk kæra vinkona Sif....:)

Jú jú, ég á þessa uppskrift af þessari dýrindis súkkulaðiköku...

Kúgaðar matskeiðar.....sé að það er tilefni til að laga þetta:D

Kveðja

Nafnlaus sagði...

Kynna mig já, þú ert frökk.
Ég hef nú bara verið þessi almenni lesandi síðunar, blogga ekki sjálfur get því ekki vísað í eitt né neitt, já og svo hlusta ég líka ávalt á "Orð skulu standa".
Nafn mitt er Guðjón.

Davíð Þór sagði...

Inda: Takk fyrir innlitið. Endilega ekki breyta þessu. Uppskriftin er alveg jafngóð og miklu skemmtilegri svona, án prófarkarlesturs og málfarsfasisma - beint úr eldhúsinu. Maður finnur næstum bökunarilminn af henni. Og ég efast ekki um að hún sé afar ljúffeng.
Guðjón: Takk fyrir þitt álit, en þetta átti nú bara að vera græskulaust grín. Mér fannst þessar kúguðu matskeiðar bara fyndnar. Mér finnst ósanngjarnt ef ég þarf að halda uppi vörnum fyrir mínum eigin húmor á minni eigin heimasíðu. Kannski verð að venja mig á að strá blikkandi brosköllum í textann svo fólk skilji hvenær ég er ekki að hneykslast heldur fíflast.

Davíð Þór sagði...

;)

Nafnlaus sagði...

Tvö stig í plús "Tvípunktursvigilokast"

Það er líka grín í kaldhæðni.
"Semikommasvigilokast"

Nafnlaus sagði...

Græskulaust grín sem gaman var að lesa :) Sá svo að Inda, eigandinn breytti þessu í "VEL FULLAR" skeiðar í stað kúfaðra, skemmti mér vel yfir því, kann greinilega að taka gríni...

Nafnlaus sagði...

Grín er til að hafa gaman af;) Og viðurkenni að ég dó úr hlátri þegar ég áttaði mig á vitleysunni:)

Kveðja Inda.

Nafnlaus sagði...

nei nei nei nei nei... Ég notaði einu sinni svona prump til að búa til vöfflur og það fór allt til helvítis. Endaði með því að ég hrærði mér deig sjálfur og fékk út úr því fínustu vöfflur. Nota aldrei svona ruzl. Ef ég kann ekki að búa deigið til, þá sleppi ég því að baka kökuna.

Nafnlaus sagði...

það er alltaf verið að plata mann. fylgdu jarðarberin með?