þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Hjartarsalt frá 2002

Í gegn um tíðina hef ég leitast við að vera ekki efnishyggjumaður. Ég hef ekki sankað að mér mörgum dauðum hlutum um dagana og þótt vænt um þá. Ég á reyndar sjónvarp, vídeótæki og X-box sem einnig fúnkerar sem DVD-spilari, auk nútímaþæginda á borð við ísskáp og þvottavél. Ég er enginn meinlætamaður.
En það er alveg merkilegt hvað safnast að manni mikið af drasli. Ég var nefnilega að flytja í vikunni og blöskraði allur óþarfinn sem ég, sjálfur andans maðurinn, hafði hugsunarlaust viðað að mér, að því er virðist einungis í þeim tilgangi að fergja mig niður og gera mér erfiðara um vik að færa mig um set.
Þarna voru til dæmis allra handa plastdollur og dósir með hvers konar festingum og tengjum sem ég hefði ekki getað ráðið í hvaða tilgangi þjónuðu þótt ég hefði átt að vinna mér það til lífs, bunki af pappírum sem ýmist voru ábyrgðir fyrir símann, úrið, útvarpsvekjaraklukkuna, brauðristina, myndavélina, X-boxið, rakvélina, ísskápinn eða þvottavélina eða eitthvað bull sem ég hafði geymt af því að mér þótti það sniðugt á sínum tíma, snúrur til að tengja myndavélina, vídeótækið eða X-boxið við tölvuna eða sjónvarpið og til að hlaða símann, rakvélina og tækið sem hleður endurhlaðanlegu batteríin sem ég nota aldrei af því að ég man aldrei að ég á svoleiðis, að ógleymdum listaverkum barnanna frá því í leikskóla (sem ekki má henda vegna tilfinningalegs gildis þeirra og hafa því safnað ryki í geymslum víðs vegar um vesturhluta Reykjavíkur undanfarinn áratug) og dós af hjartarsalti sem var best fyrir árslok 2003 af því að vorið 2002 bjó ég til rétt sem þurfti að nota eina teskeið af hjartarsalti í – svo fátt eitt sé nefnt. Margir svartir plastpokar fullir af hlutum sem ég tók einhvern veginn aldrei þá ákvörðun að eignast, en örlögin eða hvunndagurinn eða lífsins bárur eða hvað sem maður vill kalla það skoluðu inn til mín og ég vissi ekki einu sinni að ég ætti, yfirgáfu heimilið við flutningana.
Það er bara ekki hægt að vera frelsaður einstaklingur í föllnu samfélagi, það er eins og að vera eini hreini vatnsdropinn í drullupollinum. Efnishyggjan þarna úti þröngvar sér inn á heimili manns og gegnsýrir líf manns án þess að maður sé eitthvað hafður með í ráðum um það.
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 8.

4 ummæli:

Þorbjörn sagði...

Hjartarsaltið er ómissandi í pönnukökurnar sem mér skilst þú vera farinn að baka í annað hvert mál.

Saumakona - eða þannig sagði...

Frábær staður til að losna við reytur sem maður tímir ekki að henda er verslun Sorpu, Góði Hirðirinn. Maður fer upp í Sorpu með dótið og svo selja þeir það í búðinni. Í fyrra stryrktu þeir ýmis samtök um 5 milljónir, peningar sem þeir fengu með því að selja "óþarfar" eigur samborgaranna.
Gallinn fyrir mig er samt sá, að svo er ég nefnilega fíkin í að fara og gramsa í þessari sömu búð og sanka að mér meira dóti en ég fór með í Sorpu! Réttlæti það með því að ég sé að styrkja gott málefni (svona eins og þeir sem spila í kössum RauðaKrossins, kannski,?). Þarna finn ég fullt af dóti sem mér finnst rosa sniðugt og svo er það svo ódýrt, 100-200 krónur. Heimilið mitt er orðið að hálfgerðu útibúi frá GH. Ég er reyndar farin að kalla þessa tvo staði, Sorpu og Góða Hirðinn, "inn" og "út" staðina!

Nafnlaus sagði...

Mitt hjartarsalt var tónik.

Karna Sigurðardóttir sagði...

Mér finnst að það eigi að selja hjartarsalt og vanillusykur í teskeiðavís, það notar enginn heila dollu af svoleiðis!

Ég keypti mér einu sinni riiiisastórar dollur af hvoru tveggja í bónus, rosa hagstætt! :ær runnu út, eða kannski enduðu þær hjá systur minni... og búa núna með þér? haha