miðvikudagur, mars 22, 2006
Litlir karlar á stórum dekkjum
Fyrir mörgum árum átti ég litla, rauða Mözdu, tvennra dyra bíltík sem ég komst á allra minna ferða, hvert á land sem var í öllum veðrum. Hún klessulá á öllum vegum þegar ég sentist landshluta á milli og á henni gat ég skotist eins og rotta um öngstræti hundraðogeins og lagt henni hvar sem glufa gafst.
Einu sinni þurfti ég að fara austur fyrir fjall um hávetur, átti að skemmta á Hótel Örk í Hveragerði. Það var mikill snjór og óvíst um færð á leiðinni þannig að áður en ég lagði á háheiðina kom ég við í Litlu kaffistofunni til að fræðast um akstursskilyrðin. Þar var mér sagt að verið væri að ryðja veginn og að ef ég dokaði við í 15 – 20 mínútur, fengi mér kaffi og kleinu og læsi blöðin, yrði heiðin mér enginn farartálmi þótt á smábíl væri. Og þá ég það.
Að þessum tíma liðnum, kaffinu drukknu, kleinunni étinni og blöðunum lesnum hélt ég áfram ferð minni. Það vakti athygli mína að á meðan ég staldraði þarna við bar hóp manna að garði sem mér þótti skemmtilegur söfnuður, því þeir áttu það allir sameiginlegt að vera litlir, þybbnir karlar með skalla. Fyrst hélt ég að hér væri einhver stuðningshópur lítilla, sköllóttra bumbukalla á ferð, en þegar ég kom út á planið fyrir utan sá ég hvernig í öllu lá. Á planinu voru jeppar, jafnmargir og karlarnir, allir á dekkjum jafnstórum Mözdunni minni (þ. e. a. s. bifreiðinni sjálfri, ekki dekkjunum undir henni). Ég brosti með sjálfum mér og fór yfir heiðina til Hveragerðis, gjörsamlega vandkvæðalaust, og skemmti fólkinu eins og best ég gat.
Seinna fór ég að velta þessu fyrir mér og reyna að setja það í samhengi. Þá varð mér ljóst hvað er á bak við þessa jeppaáráttu og hvað þessir karlar eru að bæta sér upp. Þessi farartæki eru greinilega fyrir lágvaxna kyrrsetumenn svo þeir komist út úr bænum sitjandi kyrrir. Þeir fara saman í hópum, einn á hverjum bíl, þannig að þeir þurfa að koma við á Litlu kaffistofunni til að fá einhvern félagsskap út úr sportinu. Ég reikna með að þeir hafi komið þar við til að spjalla saman, nema þeim hafi staðið jafnmikill stuggur af færðinni og mér á Mözdunni minni.
Hugsanaferlið á bak við þessa íþrótt er nokkurn veginn svona: "Ég er svo lítill og feitur að ég verð að fá mér eitthvað tómstundagaman til að láta mér líða betur með sjálfan mig. Ég veit! Ég kaupi mér jeppa til að komast allra minna ferða allan ársins hring, svona eins og hver maður getur gert á japönskum smábíl ef hann á annað borð kann að keyra og þarf ekki beinlínis lífsnauðsynlega á því að halda að geta anað út í hvaða ófærð og fárviðri sem er fyrirvaralaust. En ég set á hann svo stór blöðrudekk að ég kemst ekki upp í hann hjálparlaust – til þess að geta keyrt hann þar sem ekki á að keyra bíla, utan vega og uppi á jöklum og svoleiðis. Þetta get ég gert í félagsskap annarra sem vita ekkert skemmtilegra en að sitja einir í bíl. Þannig getum við dúllað okkur við að "vera í samfloti" frekar en að verða samferða og hafa félagsskap hver af öðrum. Skítt með það þótt þannig spænum við upp vegi og land á kostnað samborgaranna og mengum umhverfið margfalt á við það sem þyrfti til að komast á þessa sömu staði, til dæmis fótgangandi. Ef ég gerði það myndi ég kannski hrista af mér spikið og verða myndarlegur og í kjölfarið missa þessa knýjandi þörf fyrir að eiga stóran jeppa."
Ég ætla ekki að þræta fyrir það að þetta eru magnaðir bílar og að í verstu stormunum yfir háveturinn geta þeir verið hentugir fyrir afdalabændur, landsbyggðarlækna og sveitapresta. Aðrir hafa eiginlega ekkert við þá að gera. Jú, það er hægt að fara á þeim upp á jökul í stað þess að gera það á skíðum og þannig lágmarka útvistina og hreyfinguna sem af því fæst og um leið valda heilmiklu raski. Ég las meira að segja um það fyrir nokkrum árum að einhverjum hefði tekist að fara á svona bíl upp á Hvannadalshnjúk. Ferðin tók á annan sólarhring, en þennan spöl er hægt að labba fram og til baka á einum eftirmiðdegi ef maður sleppir því að drösla tveim tonnum af stáli með sér.
Gallinn er að þegar þessir labbakútar húrra á umhverfisslysunum sínum ofan í einhverjar holur uppi á jökli þarf að ræsa út bandaríska herinn til að bjarga lífi þeirra. Að réttlæta Íslandsdvöl þessa stolta kostunaraðila fyrirbæra á borð við Víetnamstríðið, Íraksstríðið og Guantanamo með því að annars væri enginn til að ná þessu liði ofan af jöklinum aftur er einfaldlega út í hött í mínum huga.
Auðvitað geta íbúar hinna dreifðu byggða landsins þurft á skyndilegri læknisaðstoð að halda eða sægarparnir okkar slasast við skyldustörf á hafi úti. Sömuleiðis geta þeir sem stunda heilbrigða útivist lent í hrakningum. En það ætti að mínu mati ekki að vera í verkahring Bandaríkjahers að koma þeim undir læknishendur. Lágvaxnir, gildvaxnir, tekjuháir og hégómlegir kyrrsetumenn í reykvískum úthverfum með kólestrólvandamál og tilvistarkreppu sem knýr þá til að fara sér að voða á fjöllum uppi á tilgangslausum tryllitækjum sem þeir ráða ekkert við eru því máli gjörsamlega óviðkomandi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Það er líka dálítið fyndið að hugsa til þess að akkúrat núna, þegar vegakerfi landsins er loksins að verða boðlegt, vilji allir sem vettlingi geta valdið fá sér jeppa - helst breyttan. Við hefðum etv. getað sparað okkur það að malbika hringveginn?
ég var að velta því fyrir mér hvernig þessir litlu feitu karlar komast upp í stóru bílana sína, ég hef aldrei orðið vitni að því og verð að viðurkenna forvitni mína.
btw þú varst bara nokkuð hot hjá köllunum um daginn ;=)
Þessi pistill er einn sá besti sem ég hef lesið. Sennilega vegna þess að hann endurspeglar gremju mína yfir þeim hégóma að fá sér jeppa, ef maður er ekki læknir eða björgunarsveitarhetja.
Halló ég er bara lítil kerling á stórum breyttum jeppa á stórum dekkjum.
Ég hef hár á hausnum svo ekki þarf ég bílinn út á það.
En ég er bara smá kerling og mér finnst mjög gaman að keyra stóra jeppa þangað kemur að því að finna stæði þá vandast nú málið.
Mér finnst þau alltaf verða minni og minni.Eða er það vegna þess að ég fæ mér bara stærri jeppa?
Kannski er þetta bara rugl í mér
stæðin eru sennilega alltaf eins.
Jæja, meira svekkelsi[, eigum vi[ ekki bara a[ safna fyrir jeppa handa /ér. Farskjótar hafa veri[ mönnum mikilvægir frá örófi alda. Minni bara á hestinn og svo knörr víkinganna. ?ú /ekkir ekki frelsistilfinninguna vi[ /a[ a[ aka snjóbrei[una, án umhverfisskemmda, snjórinn brá[nar, í verstu ve[rum. Átök manns og náttúru.
Litlir sköllóttir kallar hafa ná[ a[ lifa mjög innihaldsríku lífi og í mörgum tilfellum skila[ heimsbygg[inni mikilli hamingju, mundu Winston Churchill. ?a[ undrar mig a[ /ú skulir leggjast á sveif me[ anorexíu deildinni sem er a[ leggja stóran hóp af vestrænum stúlkum a[ velli. Ni[ur me[ slöttólfadyrkunina, upp me[ /á sem líi[ur vel í /ví skinni sem gu[ gaf /eim.
Skrifa ummæli