þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Hjartarsalt frá 2002

Í gegn um tíðina hef ég leitast við að vera ekki efnishyggjumaður. Ég hef ekki sankað að mér mörgum dauðum hlutum um dagana og þótt vænt um þá. Ég á reyndar sjónvarp, vídeótæki og X-box sem einnig fúnkerar sem DVD-spilari, auk nútímaþæginda á borð við ísskáp og þvottavél. Ég er enginn meinlætamaður.
En það er alveg merkilegt hvað safnast að manni mikið af drasli. Ég var nefnilega að flytja í vikunni og blöskraði allur óþarfinn sem ég, sjálfur andans maðurinn, hafði hugsunarlaust viðað að mér, að því er virðist einungis í þeim tilgangi að fergja mig niður og gera mér erfiðara um vik að færa mig um set.
Þarna voru til dæmis allra handa plastdollur og dósir með hvers konar festingum og tengjum sem ég hefði ekki getað ráðið í hvaða tilgangi þjónuðu þótt ég hefði átt að vinna mér það til lífs, bunki af pappírum sem ýmist voru ábyrgðir fyrir símann, úrið, útvarpsvekjaraklukkuna, brauðristina, myndavélina, X-boxið, rakvélina, ísskápinn eða þvottavélina eða eitthvað bull sem ég hafði geymt af því að mér þótti það sniðugt á sínum tíma, snúrur til að tengja myndavélina, vídeótækið eða X-boxið við tölvuna eða sjónvarpið og til að hlaða símann, rakvélina og tækið sem hleður endurhlaðanlegu batteríin sem ég nota aldrei af því að ég man aldrei að ég á svoleiðis, að ógleymdum listaverkum barnanna frá því í leikskóla (sem ekki má henda vegna tilfinningalegs gildis þeirra og hafa því safnað ryki í geymslum víðs vegar um vesturhluta Reykjavíkur undanfarinn áratug) og dós af hjartarsalti sem var best fyrir árslok 2003 af því að vorið 2002 bjó ég til rétt sem þurfti að nota eina teskeið af hjartarsalti í – svo fátt eitt sé nefnt. Margir svartir plastpokar fullir af hlutum sem ég tók einhvern veginn aldrei þá ákvörðun að eignast, en örlögin eða hvunndagurinn eða lífsins bárur eða hvað sem maður vill kalla það skoluðu inn til mín og ég vissi ekki einu sinni að ég ætti, yfirgáfu heimilið við flutningana.
Það er bara ekki hægt að vera frelsaður einstaklingur í föllnu samfélagi, það er eins og að vera eini hreini vatnsdropinn í drullupollinum. Efnishyggjan þarna úti þröngvar sér inn á heimili manns og gegnsýrir líf manns án þess að maður sé eitthvað hafður með í ráðum um það.
Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 8.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Ég þarf að losna við reytur

Ég hef verið lélegur í blogginu undanfarið og stafar það af miklum önnum við annað, kvikmyndaleik, þýðingar og önnur skrif. Ennfremur er þannig í pottinn búið hjá mér að ég hef ekki internet heima hjá mér og þarf því að stunda blogg á heitum reitum kaffihúsa borgarinnar. Reyndar má eiga von á því að ég verði duglegri á næstunni því þann fimmtánda flyt ég og hef sambúð á Hjarðarhaganum með minni heittelskuðu. Við það að við ruglum saman reytum okkar verða hins vegar til tvö eintök af sumum reytum og því eðlilegt að sú reytan sem er í lakara ástandi víki. Þess vegna þarf ég að losna við þetta:

1) Ísskáp. Hann er í toppstandi, nema hvað rafmagnsperan er farin. (Það er svo bjart í eldhúsinu hjá mér að það kemur ekki að sök). Hann er frekar nýlegur, þótt unnustan eigi annan nýrri, og þess vegna langar mig að fá pening fyrir hann. Ég held að 10.000 kall sé sanngjarnt.

2) Þvottavél (sambyggð þvottavél og þurrkari) af gerðinni Candy Alice. Hún er ókeypis fyrir hvern þann sem nennir að ná í hana. Hún er komin til ára sinna og er lítillega biluð, en það er væntanlega lítið mál að laga það auk þess sem ég hef notað hana með góðum árangri þrátt fyrir bilunina alllengi. Bilunin er þannig að þegar vélin er á næstsíðasta stað í þvottaprógramminu, rétt áður en hún fer á "stop", hættir prógrammið að halda áfram og hún er endalaust á þessum stað (þar sem hún færi yfir í þurrkun væri stillt á þurrkun). Með því að snúa takkanum einfaldlega yfir á "stop" þegar þangað er komið í prógramminu er hins vegar hægt að taka úr vélinni þvottinn sinn tandurhreinan.

3) Ryksugu. Hún fæst líka gefins. Hún er líka biluð en vel nothæf þrátt fyrir bilunina. Bilunin er í því fólgin að hún fer í gang um leið og henni er stungið í samband, þ. e. ræsirofinn (on/off takkinn) virkar ekki (er fastur á "on"). Þessari ryksugu fylgja nokkrir ryksugupokar. Þar sem ég sit á kaffihúsi get ég ekki skotist inn í eldhús og talið þá.

Það gaf svo skolli góða raun að nota bloggsíðuna til að losna við kettlingana hérna um árið að mér datt í hug að ég gæti notað hana til að losna við þessi heimilstæki líka. Áhugasamir geta skilið eftir nafn og símanúmer í kommentakerfinu hér á síðunni eða flett upp á mér í símaskránni.