fimmtudagur, maí 04, 2006

Bellibrögð bóksala og þjóðargjöfin


Í gær nýtti ég mér þjóðargjöfina, á lokadegi gildistíma hennar. Ég hafði verið blankur og varð að bíða með það fram yfir mánaðamótin, en hlakkaði mikið til. Ég hafði nefnilega séð bókina Draumalandið eftir Andra Snæ á rétt rúmar 3000 krónur og hafði hugsað mér að kaupa hana með þúsund króna afslætti. Þegar til kom fór ég reyndar með kærustunni minni og hana langaði í Draumalandið líka svo ég ákvað að kaupa mér eitthvað annað að lesa og fá Draumalandið lánað hjá henni. Meðal annarra bóka sem mig langaði í má nefna Myndina af pabba eftir Gerði Kristnýju, stórvinkonu mína, og Aftureldingu eftir Viktor Arnar Ingófsson, en ég hafði veitt því athygli að báðar voru þær komnar út í kilju og voru seldar á átján hundruð og eitthvað krónur. Þegar ég labbaði inn í Pennann í Austurstræti uppgötvaði ég hins vegar að bóksalarnir þar höfðu bætt um betur og lækkað verðið á bókunum, væntanlega sem ábót á þjóðargjöfina – eða hvað? Þjóðargjöfin er nefnilega háð þeim annmarka að kaupa verður fyrir að minnsta kosti 3000 krónur. Draumalandið var haganlega komið niður í 2990 krónur þannig að einhverju þurfti að bæta við þau kaup til að þjóðargjöfin nýttist. Hinar bækurnar tvær sem ég nefndi voru auk þess báðar komnar niður í 1499 krónur (2998 krónur samtals). Hvernig fer maður nú að því að kaupa bækur fyrir rétt rúmar 3000 krónur í búð þar sem allar bækur kosta annað hvort 2990 krónur eða 1499 krónur? Maður verður að versla fyrir á fimmta þúsund. Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þeirri göfugu viðleitni að selja bækur ódýrt og hvetja til aukins lestrar, en þegar upp var staðið reyndist þetta vera einhver slóttugasta gjöf sem mér hefur verið gefin.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tja, þetta hlýtur að vera þá hluti af stærra plotti, því ég keypti Draumalandið í Eymundson (eða Bókabúð Olívers Steins) í byrjun mars á 2990.. sem er raunar ekki ólíklegt.

Hef raunar ekki ennþá náð að klára hana, því ég kemst ekki lengra en 20-30 síður í einu áður en það fýkur í mig og ég verð að leggja hana frá mér. Það versta er að sjá sjálfan sig í því hvernig hann lýsir sinnuleysi þjóðarinnar. Andskoti sárt. Stefni samt á að klára hana í kvöld, með því að beita öllum mínum viljastyrk.

Saumakona - eða þannig sagði...

Púff, ég fékk nú ekki einu sinni þessa þjóðagjöf sem mér er sagt að annað fólk hafi fengið inn um lúguna!
Skemmtilegt blogg hjá þér.

Nafnlaus sagði...

Sæll

Þessar upplýsingar koma náttúrulega of seint, en fólk gat vel notað ávísunina sína þó það vantaði einhverjar nokkrar krónur upp á þrjú þúsundin. Draumalandið seldist einmitt í bílförmum þessa daga vegna þess að upphæðin passaði svo vel.

Gunnhildur bóksali í Pennanum Austurstræti
(og frænka ÞGS - datt hingað þaðan)

Davíð Þór sagði...

Ó. Ég vildi að ég hefði vitað það.